Lög sem heimila fyrirtækjum að gera ársreikninga sína upp í erlendri mynt fyrir árið 2008 hafa verið samþykkt á Alþingi.

Þau fyrirtæki sem uppfylla skilyrði alþjóðlega reikningsskilastaðalsins um annan starfrækslugjaldmiðil en íslenska krónu geta sótt um að færa bókhald og uppgjör í erlendri mynt fyrir reikningsárin 2008 og 2009 og rennur umsóknarfresturinn út 30. desember.

Í áliti meirihluta efnahags- og skattanefndar Alþingis segir að í núverandi efnahagsástandi gefi uppgjör í íslenskri mynt ekki glögga mynd af raunverulegri stöðu margra fyrirtækja og að huga verði að breytingum á skilyrðum 8. gr. ársreikningalaga. Enn fremur segir þar að ekki eigi að túlka umrædda lagagrein þrengra en alþjóðlegur reikningsskilastaðall gefi tilefni til.

Endurskoðunarfyrirtækið Deloitte hefur tekið saman minnisblað um kosti og galla þess að færa bókhald yfir í erlenda mynt. Í minnisblaðinu er vakin athygli á því að einungis sé um minnisblað að ræða, og að ekki hafi verið farið ítarlega yfir alla þá þætti sem kunna að skipta máli varðandi þetta.

Meðal kosta sem fylgja því að flytja uppgjör úr íslenskri krónu yfir í erlendra mynt að mati Deloitte jákvæð breyting eigin fjár, auknir arðgreiðslumöguleikar og möguleikar á skattalegu hagræði. Meðal gallanna eru aukakostnaður sem fylgir yfirfærslunni, og að það geti leitt til þess að mat á ákveðnum fastafjármunum í lok árs 2008 sé vandasamt.

Á vef Samtaka atvinnulífsins má meðal annars sjá nánar um kosti og galla hér.