Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar Alþingis, kveðst ekki líta svo á að þeir fyrirvarar sem sé í skoðun að setja við Icesave-ríkisábyrgðina séu til þess fallnir að fella Icesave-samningana sem undirritaðir voru við Hollendinga og Breta í byrjun júní.

„Það stendur í samningunum að þeir öðlist gildi ef Alþingi samþykkir þá. Við erum að vinna út frá því að tryggja okkar hagsmuni sem allra best," segir hann í samtali við Viðskiptablaðið.

Frumvarpið um Icesave-ríkisábyrgðina hefur verið til umfjöllunar í fjárlaganefnd Alþingis í nokkurn tíma og kveðst Guðbjartur ekki vilja fullyrða um það með vissu hvenær líklegt sé að það verði afgreitt þaðan. Hugsanlega þó um eða eftir helgi. Þá fer málið til annarrar umræðu.

Vonast eftir þverpólitískri sátt

Hann kveðst vona að þverpólitísk sátt náist um niðurstöðuna. Stjórnarflokkarnir séu þó ekki í því að „telja hausa og pína þetta í gegn," segir hann. „Allir stjórnmálaflokkar eiga hins vegar að axla ábyrgð á því sem hefur gerst þótt það sé jafn erfitt og ómögulegt og það er."

Þegar hann er spurður hvers vegna samningunum sé ekki einfaldlega hafnað - í stað þess að reyna að setja fyrirvara við þá - svarar hann því til að það sé enginn tilgangur í því í sjálfu sér að byrja aftur á núllpunkti. Nú sé unnið samkvæmt ferli sem upphaflega hafi verið ákveðið með þingsályktunartillögu í desember.

Fjárlaganefnd sé nú að vinna að því að reyna að tryggja sem best hagsmuni íslenskra skattgreiðenda. „Það er okkar hlutverk," segir hann.

Guðbjartur telur heldur ekki annað koma til greina en að Íslendingar standi við sínar skuldbindingar. Mikilvægt sé að afgreiða Icesave-málið.