Fyrirvarar í niðurlagi tölvupósts um mögulegar trúnaðarupplýsingar eru ónauðsynlegir hér á landi, segir lögfræðingurinn Haraldur Steinþórsson, með vísan til ákvæða laga um fjarskipti. Slíkir fyrirvarar hafa færst í vöxt þar sem viðtakendur eru beðnir um að endursenda tölvupóst sem hefur borist þeim fyrir mistök eða tilviljun. Eru þeir beðnir um að gæta fyllsta trúnaðar og hvorki lesa né skrá niður upplýsingar úr tölvupóstinum.

Í lögunum kemur fram að sá sem fyrir tilviljun, mistök eða án sérstakrar heimildar tekur við símskeytum, myndum eða öðrum fjarskiptamerkjum og táknum eða hlustar á símtöl má ekki skrá neitt slíkt hjá sér eða notfæra sér það á nokkurn hátt. Jafnframt ber honum að tilkynna sendanda að upplýsingar hafi ranglega borist sér. Skylt er að gæta fyllsta trúnaðar í slíkum tilfellum. Séu lög þessi brotin varðar það sektum og fangelsisvist í allt að þrjú ár séu sakir miklar, ítrekaðar og framdar í ávinningsskyni, hvort sem er í eigin þágu eða annarra.

Haraldur vann að rannsóknarverkefni, sem laut að gildum fyrirvara í samskiptasendingum og um vernd rafrænna fjarskipta, þegar hann stundaði nám í lögfræði við Háskóla Íslands. Fyrirvararnir gera lítið annað en að minna á lagalegar skyldur þeirra sem fá í hendur tölvupósta sem eru ætlaðir öðrum segir Haraldur.

Aðspurður hvort hann vissi til þess að dómur hefði fallið þar sem reynt hefði á fyrirvarana taldi hann að svo væri ekki. Hins vegar reyndi á vernd tölvupósta í máli Jónínu Benediktsdóttur gegn 365 miðlum árið 2006. Í því máli taldi Hæstiréttur birtingu frægra tölvupósta réttlætanlega þar sem ekki hefði verið gengið nærri einkalífi Jónínu en óhjákvæmilegt væri í opinberri umræðu um málefni sem varðaði almenning.

Aðrar reglur í Bandaríkjunum

Í Bandaríkjunum gilda ekki sömu reglur um þessa fyrirvara. Þar ber viðtakendum tölvupósts engin lagaleg skylda gagnvart fyrirvörum í niðurlagi tölvupósts segir lögmaðurinn Susan Lyon á vefsíðu tímaritsins Wired.

Þar eru þessir fyrirvarar marklausir í lagalegum skilningi því viðtakendum er frjálst að lesa og notfæra sér upplýsingar úr tölvupósti sem berst þeim sé ekki um skattaupplýsingar að ræða. Lögmaðurinn Laurence Pulgram bendir þó á að fyrirvararnir fylgja ekki tölvupóstum að ástæðulausu því án þeirra gætu viðtakendur álitið sem svo að efnið væri opinbert og að sendanda stæði á sama um trúnað þeirra.