Lokið er uppsteypu á fyrri hluta Hvítárbrúar. Verkið gekk mjög vel og í raun hraðar en áætlanir gerðu ráð fyrir. Samtals var um að ræða um 2000 rúmmetra af steypu sem ekið var með frá Reykjavík og Selfossi af 32ja bíla flota Steypustöðvarinnar í Reykjavík. Unnið var sleitulaust frá því snemma á föstudagsmorgni og var síðasti bílinn tæmdur snemma að morgni laugardags að því er segir í tilkynningu.

Mikill undirbúningur var að þessu stóra verki og hafa aðilar frá Vegagerð ríkisins, JÁ verk ehf. og Steypustöðinni undirbúið þessa steypuvinnu í nokkra mánuði. Um 150 manns komu að verkinu og luku fyrri hluta uppsteypunar um helgina. Hvítá skammt frá Flúðum í Árnessýslu er nú brúuð að hálfu leiti og verður fljótlega hafist handa við að veita ánni undir fyrri hluta brúarinnar og í framhaldinu verður slegið upp fyrir síðari áfanga verksins.

Búist er við að sú steypuvinna geti farið fram næsta sumar, en vegagerðin gerir ráð fyrir að hleypa umferð á brúna í nóvember á næsta ári. Um er að ræða afar mikla samgöngubót fyrir efri byggðir Árnessýslu og um leið mikinn fjölda sumarhúsaeigenda og gesta.

JÁ verk ehf.  eru bygginaraðil Hvítárbrúar fyrir Vegagerðina en Steypustöðin er undirverktaki og afhendir steypu til verksins.