Finnur Árnason, forstjóri Haga, segist telja að ákveðins misskilnings gæti í umræðunni um sölu BT til Haga.

„Það var ekki Landsbankinn sem seldi BT. Félagið fór í þrot og fór til skiptastjóra. Það kom fram hjá Tryggva Jónssyni og ég gat ekki skilið Elínu Sigfúsdóttur öðru vísi en að fyrri eigendur voru búnir að vera að reyna að selja BT um skeið,” segir Finnur í samtali við Viðskiptablaðið.

Finnur segir að samkvæmt hans upplýsingum hafi BT stefnt í þrot og í framhaldi þess hafi Tryggvi Jónsson verið beðinn að hafa samband við þá og einn fundur hafi verið í framhaldi þess milli Haga og Landsbankans.

Að sögn Finns fengu þeir hjá Högum upplýsingar um rekstur BT á þeim fundi og þar kom fram að Hagar höfðu ekki áhuga á að kaupa BT enda hafi þeir metið það svo að félagið hafi verið komið í þrot á þeim tíma. Finnur segir að þessi fundur hafi verið rétt áður en BT var lýst gjaldþrota.

„Mér finnst þetta ótrúleg umræða. Við erum að taka yfir starfssamninga 40 til 50 starfsmanna og þetta er látið líta út eins og það sé einkennilegt. Félagið fór til skiptastjóra og hann hefur sagt opinberlega að hann hafi fengið annað formlegt tilboð og einhverjar þreyfingar sem ég hef ekki hugmynd um hverjar eru. Ég trúi því og treysti að skiptastjóri vinni með hagsmuni búsins að leiðarljósi.

Tryggvi er að fá þessar skammir vegna þess að hann var beðinn af fyrri eigendum að skoða hvort við hefðum áhuga á þessu. Að þeir séu að sletta á hann skíti í framhaldi þess er ótrúlegt.”

Finnur sagði að Hagar hefðu keypt innréttingar, lager og vörumerki af skiptastjóra. Það hafi verið eignir búsins á þeim tíma. Um leið tóku þeir yfir starfssamninga sem Finnur segir að hafi losað búið úr mikilli klemmu.

BT er nú með búðir á Akureyri og í Smáralind. Aðspurður sagði Finnur að allt eins gæti komið til greina að selja reksturinn.