Fyrrverandi eigendur Húsasmiðjunnar hafa undirritað sátt við Samkeppniseftirlitið hvað varðar atburði sem voru til rannsóknar frá árunum 2008 til 2011 og sneru að starfsemi Húsasmiðjunnar áður en vörumerki hennar og rekstur voru seld til dönsku byggingavörukeðjunnar Bygma í árslok 2011. Eigendurnir gömlu starfa undir félaginu Holtavegur 10 ehf og er það í eigu Hamla, félags Landsbankans sem heldur utan um eignir sem bankinn hefur tekið yfir.

Fram kemur í tilkynningu frá Húsasmiðjunni að samhliða þessu hafi Húsasmiðjan ehf, sem fer með reksturinn í dag, gert samkomulag um að formfesta frekar samkeppnisfræðslu starfsfólks og innleiða formlega samkeppnisréttaráætlun ásamt því að undirgangast frekari skilyrði vegna eignarhlutar Húsasmiðjunnar í Steinull ehf.

Með þessu telst rannsókn Samkeppniseftirlitsins á Húsasmiðjunni lokið. Hún hófst 8. mars árið 2011. Á hinn bóginn er ákæra sérstaks saksóknara í sakamáli á hendur ákveðnum starfsmönnum sem voru við störf á  rannsóknartímabilinu sjálfstætt mál sem mun eiga sinn farveg í dómskerfinu og viðkomandi einstaklingar saklausir uns sekt er sönnuð, eins og tekið er fram í tilkynningunni.