*

fimmtudagur, 2. desember 2021
Innlent 13. október 2016 16:44

Fyrri hluthafar stefna Björgólfi Thor

Félögin Vogun hf. og Fiskveiðahlutafélagið Venus hf., hafa stefnt Björgólfi Thor Björgólfssyni til greiðslu skaðabóta.

Ritstjórn

Félögin Vogun hf. og Fiskveiðahlutafélagið Venus hf., sem keyptu hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. á árunum 2006 og 2007 hafa stefnt Björgólfi Thor Björgólfssyni til greiðslu skaðabóta vegna tjóns sem félögin urðu fyrir vegna kaupa á hlutabréfum í Landsbanka Íslands hf. Verða mál félagana þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 1. nóvember næstkomandi. Með fyrirsvar fyrir fyrrgreind félög fer Kristján Loftsson. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Landslögum fyrir stundu.  

Bæði félögin tóku þátt í hópmálsókn hluthafa Landsbanka Íslands gegn Björgólfi Thor sem var vísað frá dómi með dómi Hæstaréttar þann 2. maí s.l. Hafa þau nú ákveðið að láta reyna á rétt til skaðabóta í sjálfstæðum málum. Að sögn lögmanna byggir málsókn þeirra á sömu rökum og grundvelli og fyrri hópmálsókn. Telja stjórnir félaganna að fram komin gögn gefi sterklega til kynna að Björgólfur Thor hafi með saknæmum hætti komið í veg fyrir að hluthafar í Landsbanka Íslands hf. hafi fengið upplýsingar um umfangsmiklar lánveitingar tengdar honum og einnig að hann hafi brotið gegn reglum um yfirtökuskyldu eftir að Samson eignarhaldsfélag hf. náði yfirráðum yfir Landsbankanum.

Í tilkynningunni segir jafnframt að félögin telji að Landsbanki Íslands hf. hafi verið undir fullum yfirráðum Samson eignarhaldsfélags hf. frá miðju ári 2006, en við þær aðstæður hafi yfirtökuskylda stofnast. Hafi Björgólfur Thor sem stjórnarformaður Samson látið undir höfuð leggjast að bregðast við yfirtökuskyldu sem á félaginu hvíldi og með þeirri vanrækslu bakað sér bótaábyrgð gagnvart hluthöfum.

Þá telja lögmenn að niðurstaða í þessum málum getur orðið fordæmisgefandi fyrir málsóknir annarra hluthafa.

Stikkorð: Björgólfur Thor