„Mín fyrsta alvöruvinna var að vera það sem kallað var vinnumaður í sveit. Ég var sex sumur í sveit á Kagaðarhóli í Austur Húnavatnssýslu,“ segir Skarphéðinn Berg Steinars­ son, forstjóri Iceland Express um sín fyrstu skref á vinnumarkaði.

„Kvölds og morgna að reka kýr og fara í fjós auk allra annarra starfa sem voru í gangi. Það var gríðarlega gott að vera þarna hjá góðu fólki og lærdómsríkt. Hef búið að því alla tíð síðan. Manni lærðist að það verður að klára verkin því þau leysast ekki af sjálfu sér. Eftir sveitavinnuna tóku við ýmis sumarstörf. Þegar ég var í háskóla vann ég öll sumur hjá Flugleiðum og fékk þar margbreytilega reynslu sem nýtist mér ágætlega í því starfi sem ég er núna í.“