Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra og þingmaður Bjartrar framtíðar, hefur löngum vakið mikla athygli fyrir framgöngu sína í stjórnmálum enda þekkt fyrir að tala tæpitungulaust um þau mál sem fyrir henni liggja. Sem ráðherra hefur hún sett loftlags- og umhverfismál á oddinn og ekki farið leynt með þá skoðun sína að hún telji stóriðju ekki samrýmast stefnu Bjartrar framtíðar um umhverfisvernd og fjölbreytt atvinnulíf.

Það er óhætt að segja að þú hafi verið afdráttarlaus í skoðunum þínum á stóriðju sem og öðrum atvinnugreinum sem hafa mengandi áhrif á umhverfið. Myndir þú segja að atvinnulífið og umbætur í umhverfismálum fari hreinlega saman hvað þetta varðar?

„Ég held að atvinnulífið geti verið miklu fljótara en stjórnkerfið að aðlaga sig að breytingum og aðlaga sig að því sem almenningur vill og því sem á endanum selur betur. Þó að það sé full ástæða til þess að hafa áhyggjur af Donald Trump þegar kemur að loftlagsmálum þá hefur atvinnulífið í Bandaríkjunum að stórum hluta áttað sig á því að það er krafa frá neytendum að atvinnulífið fari þessa leið í átt að umhverfisvernd og sjálfbærni. Þetta er það sem virkilega telur og hefur áhrif.

Ég tel að fyrirtæki vilji flest sannarlega vera umhverfisvæn, ekki einungis vegna þess að það séu góð gildi sem liggja þar að baki. Það er hreinlega „góður business“. Þess eru mörg dæmi um að fyrirtæki hafi beinlínis auki hagnað sinn með því að hafa starfsemi sína umhverfisvænni. Eins er

Hefur ávallt mótmælt ívilnunum

Myndir þú segja að síðasta ríkisstjórn og þá helst Ragnheiður Elín Árnadóttir, þáverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra, hafi gengið of langt í ívilnunum sínum gagnvart stóriðjunni?

„Ég hef mótmælt ívilnunarhugmyndinni frá því að ég settist á þing. Í fyrsta lagi eru ívilnanir í gegnum sérstaka fjárfestingarsamninga ríkis og sveitarfélaga í eðli sínu samkeppnishindrandi og óréttlátar. Það er ekkert til sem heitir ókeypis peningar eða afsláttur af gjöldum. Það sem gerist er að það greiðir bara einhver annar fyrir þann afslátt og það eru þá bara aðrir skattgreiðendur, bæði almenningur sem og önnur fyrirtæki sem borga sína skatta og gjöld upp í topp.

Mér hefur alltaf þótt ótrúlegt að heyra þann málflutning að hér sé ekki um að ræða peningaútgjöld og því ekki tapaður eyrir fyrir ríkið. Þetta er tapaður eyrir fyrir hina sem eru að borga sinn hlut inn í innviði, borga fullt tryggingagjald. Viðkomandi eru þá látnir borga of mikið til þes að ná að smyrja upp í afslátt fyrir það sem aðrir fá sem sérstaka ívilnun. Í öðru lagi er ævintýralega ruglað að stjórnvöld hafi verið að vinna að því að fá mengandi iðnað til landsins. Ég skil ekki hvernig það gat verið stefnan svona lengi. Stærsta græna skrefið sem þessi ríkisstjórn hefur stigið er að er að hætta að veita ívilnunarsamninga, eins og þá sem þú nefnir, til mengandi stóriðju.“

Þannig að það er óhætt að segja að þú teljir að það hafi verið gengið of langt?

„Já, svo sannarlega!“

Viðtalið við Björt Ólafsdóttur, umhverfis- og auðlindaráðherra, má lesa í heild sinni í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.