Fyrrum eiginkona bandaríska olíukóngsins Harold Hamm hefur hafnað greiðslu upp á tæplega 975 milljónir dala, um 125 milljarða króna. Wall Street Journal fjallar um málið.

Dómari í Oklahoma dæmdi Hamm til greiðslu tæplega milljarðs dala sem lokagreiðslu í tæplega þriggja ára skilnaðardeilu Hamm og fyrrum eiginkonu hans Sue Ann Arnall.

Hamm sendi því Sue Ann ávísun upp á 974.790.317,77 dali eins og úrskurður dómara hljóðaði upp á. Hún vill hins vegar ekki leysa hana út og hefur áfrýjað úrskurðinum.

Áður hafði Sue Ann fengið tvö hús, sveitabýli og fleiri eignir sem eru að verðmæti nokkurra milljarða dala.

Að sögn Wall Street Journal krefst Sue Ann nokkurra milljarða dala í lokagreiðslu.