Fyrrum einræðisherra Panama, Manuel Noriega, hefur ákveðið að fara í mál við tölvuleikjafyrirtækið Activision, að því er fram kemur á vef BBC. Ástæðan er sú hvernig hann birtist í tölvuleiknum Call of Duty: Black Ops II, sem fyrirtækið framleiddi.

Hinn 80 ára gamli Noriega, sem nú afplánar dóm fyrir brot sem hann framdi í einræðisherratíð sinni, er ekki anægður með að hans persóna hafi verið notuð í tölvuleiknum til að gera hann vinsælli.  Hann vill meina að mannorð hans sé svert í leiknum vegna þess hvernig hann birtist, bæði sem morðingi og fórnarlamb stjórnvalda.

Í ákærunni kemur fram að það hvernig hann birtist í leiknum hafi ýtt undir vinsældir Black Ops, en leikurinn var sá mest seldi í Bretlandi, Bandaríkjunum og víðar árið 2012.