Ehud Olmert, fyrrverandi forsætisráðherra Ísrael, var í dag dæmdur fyrir mútuþægni. Málið á rætur að rekja aftur til þess þegar hann var borgarstjóri Jerúsalemborgar á árunum 1993 til 2003. Hann á að hafa tekið við greiðslum til að greiða fyrir byggingu lúxusíbúða í borginni. Málið hefur verið lengi í pípunum en Olmert sagði af sér sem forsætisráðherra vegna þessa árið 2009.

Breska dagblaðið Guardian segir Olmert ekki eina stjórnmálamanninn til að gerast sekur um glæp. Bent er á að Avram Hirchson, sem var fjármálaráðherra Ísraels í stjórnartíð Olmerts, hlaut árið 2009 fimm ára dóm fyrir þjófnað og peningaþvætti.

Þá segir blaðið hlut Olmerts lið í stærri heild, þ.e. að verktakar hafi greitt stjórnmálamönnum háar fjárhæðir, sem svarar til margra milljóna dala, til að greiða fyrir framkvæmdum í borginni.

© european pressphoto agency (european pressphoto agency)
Ehud Olmert, í bláu skyrtunni, í dómssal í Tel Aviv í dag. VB MYND / EPA.