Maurice Greenberg, fyrrverandi framkvæmdastjóri American International Group (AIG) gæti þurft að punga út sektargreiðslu upp á 100 milljónir Bandaríkjadala til að ná sáttum í sakamáli sem saksóknari New York höfðaði á hendur honum fyrir 3 árum síðan.

Greenberg og saksóknarinn eiga nú í samningaviðræðum um málalok og ræða um sekt upp á 50-100 milljónir dala, samkvæmt frétt Reuters.

Þeir deila hins vegar um orðalag dómssáttarinnar, en Greenberg neitar að skrifa undir sátt þar sem segir að hann hafi brotið af sér.

Greenberg hætti störfum hjá AIG árið 2005 eftir að ásakanir um fjármálamisferli í starfi komu upp. AIG var einnig sótt til saka fyrir málið og greiddi 1,64 milljarða Bandaríkjadala til að ná sáttum í sínu máli fyrir 2 árum síðan.