Daniel Mudd, fyrrum forstjóri bandaríska húsnæðislánasjóðsins Fannie Mae, segist sjá eftir því að hafa ekki farið hægar í þá hluti sem fyrirtækið var beðið um að gera í stjórnartíð hans.

Á fréttvef Reuters er haft eftir Mudd að Fannie Mae hafi sífellt verið beðið um að auka útlán, koma í veg fyrir lausafjárskort og koma til móts við bæði fjárfesta sem húsnæðiseigendur.

„Ég hefði betur átt að biðja stjórnvöld um afdráttarlaus svör varðandi það hvort við ættum heldur að auka eigið fé eða auka lánveitingar,“ segir Mudd, ekki hefði gefist vel að vinna að báðum hlutum í einu.

Mudd segir að í stöðunni sé að einkavæða Fannie Mae og Freddie Mac. Það myndi þýða það að ríkisstyrkir til sjóðanna yrðu skertir og að sjóðirnir myndu eingöngu einbeita sér að fjárfestingum á sviði húsnæðismála.

Ríkisstjórn Bandaríkjanna þjóðnýtti Fannie Mae og Freddie Mac í september í von um að endurfjármagna stofnanirnar sem eru þær stærstu á sviði húsnæðislána vestanhafs.

Nefnd á vegum Bandaríkjaþings tilkynnti nýlega að fall Fannie Mae og Freddie Mac yrði rannsakað sem og þjóðnýtingin, eftir bandarísku forsetakostningarnar sem verða í nóvember.