MBIA, stærsti útgefandi skuldatrygginga í heiminum, hefur endurráðið fyrrum forstjóra sinn, Joseph Brown, til að taka við af núverandi forstjóra, Gary Dunton, og vinna að endurreisn félagsins í kjölfar mikils taps vegna afskrifta, 80% lækkunar á gengi hlutabréfa og tilkynninga matsfyrirtækja um endurskoðun á lánshæfismati til lækkunar. Greint er frá þessu í Vegvísi Landsbankans.

Lánshæfiseinkunnin í mikilli hættu MBIA hefur tapað meira en 5 mö.USD á ótryggum húsnæðislánum og hangir lánshæfismatið AAA á bláþræði. Moody's hefur tilkynnt að verið sé að yfirfæra lánshæfismat MBIA og verða niðurstöður þess ljósar í lok mánaðarins. Standard & Poor hugleiðir einnig að lækka lánshæfismat fyrirtækisins og Fitch lækkaði lánshæfismat skuldatryggingaútgefandans Ambac í AA í síðasta mánuði.

Möguleg uppskipting MBIA Í yfirlýsingu frá Joseph Brown bendir hann á þá leið að skipta félaginu upp þannig að skuldatryggingar opinberra aðila verði skildar frá tryggingum bréfa sem tengjast ótryggum húsnæðislánum. FGIC Corp., þriðji stærsti grunntryggjandi í heimi, sótti um leyfi til að skipta upp fyrirtækinu í síðustu viku og orðrómur er um að Ambac hyggist gera hið sama. Yfirmaður tryggingaeftirlits New York hefur bent á nauðsyn slíkrar uppskiptingar til að vernda hagsmuni opinberra aðila auk þess sem tilboð Warren Buffett til skuldatryggingafélaganna gekk út á að endurtryggja öruggasta hlutann.

Eykur uppskipting afskriftir banka? Hugsanleg uppskipting grunntryggjendanna vekur blendin viðbrögð. Í samtali við Bloomberg í dag hélt forstöðumaður skuldabréfagreininga hjá Morgan Stanley því fram að slíkt yrði versta niðurstaðan fyrir fjármálamarkaði. Þótt AAA einkunn á bréfum opinberra aðila yrði bjargað með slíkum aðgerðum myndu önnur bréf lækka og neyða banka til að afskrifa allt að 35 ma.USD til viðbóta.

Hlutabréf í MBIA lækkuðu um tæp 4% í viðskiptum í dag og stóð lokagildi bréfanna í 12,11 USD á hlut þegar viðskiptum í kauphöllinni lauk, samkvæmt því sem segir í Vegvísinum.