„Það væri að æra óstöðugan að elta ólar við allar þær rangfærslur og hálfsannleika sem finna má í 600 blaðsíðna skýrslu úttektarnefndar um Orkuveitu Reykjavíkur,“ segir Guðmundur Þóroddsson, fyrrverandi forstjóri OR. Hann segir að tveir ólíklegir hlutir hafi verð bornir saman þegar því sé haldið fram að upphafleg kostnaðaráætlun Hellisheiðarvirkjunar hafi hljóðað upp á 20 milljarða króna en endað í meira en 70 milljörðum.

Úttektarnefndin skilaði frá sér skýrslu í síðustu viku þar sem rekstur OR á árunum 2002 til loka árs 2010 var undir smásjánni. Í skýrslunni kemur fram hörð gagnrýni á stjórn OR.

Í yfirlýsingu frá Guðmundi vegna málsins segir orðrétt:

„Þarna er verið að bera saman tvo gjörólíka hluti því upphaflega talan sem vitnað er í byggir á áætlun fyrir 40 MW raforkuframleiðslu og 100 MW hitaframleiðslu. Virkjunin í dag samanstendur af 303 MW raforkuframleiðslu og 133 MW í hita sem byggð var upp í 5 áföngum og voru ákveðnir af stjórn og eigendum Orkuveitunnar á mörgum árum. Að auki er verðlag mismunandi með 10 ára mun á milli tímapunkta.

Staðreynd málsins er sú að virkjunin á Hellisheiði er ein hagkvæmasta jarðvarmavirkjun sem byggð hefur verið í heiminum. Það er því full ástæða fyrir þjóðina að vera stolt af henni. Virkjunin er ein af meginstoðum tekna Orkuveitunnar og hagkvæmni hennar ein af ástæðum þess að tekist hefur að halda orkuverði jafn lágu og raun ber vitni,“ skrifar hann og áréttar að Hengilsvæðið sé afar vel rannsakað.

„Þær rannsóknir benda til þess að auðlindin muni endast næstu hálfa öld a.m.k.. Alþjóðlega viðurkenndir vísindamenn telja að væntanlega líði þó mun lengri tími áður en raforkuframleiðsla þaðan stöðvast og eftir það streymi áfram heitt vatn þaðan til húshitunar næstu árhundruðin.“