Saksóknaraembættið í Brunswick hefur ákært fyrrum forstjóra Volkswagen fyrir spillingu í 44 ákæruliðum, segir í frétt Dow Jones

Forstjórinn, Peter Hartz, sagði af sér á síðasta ári þegar hann var sakaður um mútugreiðslur. Volkswagen er stærsti bifreiðaframleiðandi í Evrópu, en höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Wolfsburg í Brunswick héraðinu í Þýskalandi.

Í ákærunni er Hartz sakaður um trúnaðarbrest og óeðlilegar greiðslur til starfsmanns fyrirtækisins. Hartz er gefið að sök að greiða forstjóra framleiðslusviðs fyrirtækisins, dr. Klaus Volkert um 1,95 milljónir evra (um 175 milljónir króna), til viðbótar við föst laun á tímabilinu 1994 til 2005, án þess að gefa það upp.

Saksóknaraembættið er sannfært um að Volkert hafi verið greitt féð vegna valdastöðu sinnar í fyrirtækinu, en Volkert sagði einnig af sér í fyrra. Hartz er einnig gefið að sök að hafa heimilað allt að 400 þúsund evru (36 milljóna króna) greiðslur til fyrrum elskhuga Volkert á tímabilinu 2000 til 2004. Hvorki Hartz né Volkert hafa tjáð sig um málið við fjölmiðla.