Fons eignarhaldsfélag hefur staðið í stórræðum undanfarnar vikur og mánuði fyrir utan að eiga og reka íslenska lággjaldafélagið Iceland Express. Þann 14. mars sl. keypti Fons, sem er í eigu Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristinssonar, danska lággjaldaflugfélagið Sterling fyrir tæpa 5 milljarða króna. Þá undirrituðu félagarnir svo samning um kaup á danska lággjaldaflugfélaginu Maersk Air þann 30. júní 2005 á upphæð sem ekki hefur verið gefin upp. Hins vegar fullyrðir danska blaðið Børsen að seljandinn, A.P. Møller - Mærsk, hafi veitt svo mikla meðgjöf með Maersk Air að verðmæti meðgjafarinnar jafni út kaupverð Fons á Sterling.

Báðir þessir menn hófu viðskiptaferil sinn í grænmetissölu á Íslandi. Félag þeirra Fengur varð eigandi að grænmetissamsteypu eftir samruna sem Pálmi stýrði á þeim markaði árið 1995 og var upphafið að miklu veldi. Kynnt var að þeir hafi keypt ráðandi hlut í Iceland Express þann 22. október 2004 en orðrómur um kaupin hafði þá staðið í marga mánuði. Pálmi var þó ekki nefndur á nafn í því sambandi fyrr en löngu síðar, aðeins Jóhannes, en Pálmi hafði áður verið hluthafi og stjórnarmaður í Flugleiðum fram í júní 2004.

Ítarleg fréttaskýring í Viðskiptablaðinu í dag.