Hæstiréttur dæmdi í dag Helga Þór Bergs, fyrrverandi framkvæmdastjóra fjárfestingarbankasviðs Kaupþings, til að endurgreiða þrotabúi Kaupþings tæpar 642 milljónir króna með dráttarvöxtum frá lokum júní árið 2010 vegna lána sem hann fékk til hlutabréfakaupa. Þetta er staðfesting á dómi héraðsdóms sem Helgi áfrýjaði.

Í dómi Hæstaréttar kemur fram að Helgi fékk 517.195.741 krónu að láni hjá Kaupþingi í desember árið 2005 til kaupa á hlutabréfum bankans. Um svokallað kúlulán var að ræða þar sem það átti að greiðast til baka í einni greiðslu 1. desember fimm árum síðar. Þá voru hlutabréfin veð fyrir láninu. Samkvæmt dómi Hæstaréttar tók Helgi annað lán undir lok apríl árið 2006 sem nýta átti til kaupa á hlutabréfum í Kaupþingi. Lánið hljóðaði upp á 507.660.923 krónum og átti að greiðast í einu lagi 28 apríl í fyrra.

Í dómsorði segir m.a. að í lánasamningi hafi ekki verið að finna takmörkun á persónulegri ábyrgð lántaka og í hvorugum lánasamningi kveðið á um að honum skyldi tryggja skaðleysi vegna þeirra.

Þá segir í dómi Hæstaréttar að sú ákvörðun stjórnar Kaupþings 25. september árið 2008, um viku áður en bankinn fór í þrot að fella niður persónulegar ábyrgðir starfsmanna á lánum sem þeim höfðu verið veitt til hlutabréfakaupa, hafi fólgist gjafatilgangur. Það, eins og Hæstiréttur segir, hafi Helga átt að vera ljóst.

Dómur Hæstaréttar