„Þetta hefur verið draumur í þó nokkurn tíma,“ segir Emilía Björg Óskarsdóttir, söngkona og fyrrum meðlimur hljómsveitarinnar Nylon, sem opnaði Söngskóla Emilíu síðastliðinn þriðjudag í Reykjanesbæ. Emilía mun halda námskeið í sumar í safnaðarheimili í Innri-Njarðvíkurkirkju og verður með námskeið á haustin og vörin. Skólinn er sérstaklega ætlaður börnum og unglingum á aldrinum 8-16 ára.

Emilía flutti til Reykjanesbæjar frá Danmörku fyrir rúmum tveimur árum síðan. Hún segist hafa fundið fyrir því að það vantaði eitthvað í flóruna þar á bæ.

„Ég hef alltaf verið að bíða eftir því að það komi hingað söngskóli af einhverju tagi. Sjálf á ég mjög söngglaða stúlku og persónulega finnst mér of langt að keyra einu sinni eða tvisvar í viku til Reykjavíkur til að fara á söngnámskeið. Þó eru margir sem gera það. Mér fannst eitthvað vanta hérna. Af hverju ættu krakkarnir að þurfa að fara langar vegalengdir til að fara á söngnámskeið? Svo ég fór að hugsa þetta aðeins lengra og það rann upp fyrir mér að ég væri í raun með allt sem þyrfti til að stofna söngskóla sjálf hérna í Reykjanesbæ,“ segir Emilía, sem starfað hefur sem tónlistarmaður um nokkurt skeið og tekið að sér einkakennslu fyrir krakka og unglinga, svo sem í undirbúningi fyrir söngvakeppnir og þess háttar.

„Mig hefur langað til að vinna meira með börnum og unglingum, því það hefur verið svo ofboðslega gaman að kenna söng og hefur gefið mér mikið,“ segir Emilía. „Mér fannst bara tilvalið að slá til og opna minn eigin skóla.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Farið er í saumana á fasteignamarkaðnum á Akureyri.
  • Ræstingarfyrirtækið Sólar hefur verið í stöðugum vexti undanfarin ár.
  • Eigandi Himbrima gin tjáir sig um samstarfið við fyrrverandi viðskiptafélaga.
  • Fjallað um ráðstefnu Reiknistofu bankanna um tækni í fjármálum.
  • Breytingar á fólksflutningum milli Íslands og Noregs.
  • Ítarleg úttekt á íslenska tölvuleikjaiðnaðnum.
  • Gönguferð í stórbrotinni náttúru Vestfjarða.
  • Rætt er við framkvæmdastjóra fyrirtækisins Knarr Maritime, sem er markaðsfyrirtæki á sviði skipalausna.
  • Alma Tryggvadóttir er nýráðin sérfræðingur í persónurétti hjá Landsbankanum.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs, sem skrifar um öfgastefnur í pólitík.
  • Óðinn skrifar um íhaldssama sósíalista.