Fjórir fyrrverandi starfsmenn Straums fjárfestingarbanka sinna nú gjaldeyriseftirliti hjá Seðlabanka Íslands. Ingibjörg Guðjartsdóttir gegnir starfi forstöðumanns eftirlitsins, en hún var áður lögfræðingur hjá Straumi.

Auk hennar hefur Seðlabankinn ráðið Andra Gunnarsson og Arnfríður Arnardóttur, sem áður voru í fjárstýringu Straums, í gjaldeyriseftirlitið. Þá er Pétur Steinn Pétursson, fyrrum starfsmaður Straums, í tímabundnum verkefnum hjá eftirlitinu.

[ Árétting : Samkvæmt athugasemd frá Arion banka, þar sem Arnfríður Arnardóttir starfar nú, starfaði hún aðeins tímabundið í Seðlabanka Íslands eða í þrjár vikur. Uppfært 17:19]

Gjaldeyriseftirlitið fylgist með gjaldeyrisviðskiptum á Íslandi og tilkynnir hugsanleg brot á gjaldeyrishöftunum til Fjármálaeftirlitsins. Fyrir stuttu var haldinn blaðamannafundur þar sem kynnt voru meint brot fjórmenninga á gjaldeyrisreglum Seðlabankans. Þrír af fjórum einstaklingum sem þar eiga hlut að máli störfuðu áður hjá Straumi.

Spurt um hæfi þessara starfsmanna til að fjalla um mál fyrrum samstarfsmanna segir í svari Seðlabankans að það eigi ekki við.

Viðskiptablaðið beindi skriflegum spurningum til Seðlabankans um þessi mál og í svari sem Stefán Jóhann Stefánsson, ritstjóri hjá Seðlabankanum, segir:

„Það er hlutverk Seðlabankans að hafa eftirlit með því að starfsemi aðila sé í samræmi við lögin um gjaldeyrismál (lög nr. 87/1992) og tilkynna til Fjármálaeftirlitsins ef grunur vaknar um brot gegn þeim eða reglum settum á grundvelli þeirra. Það er hins vegar hlutverk Fjármálaeftirlitsins að rannsaka þau mál sem Seðlabankinn hefur tilkynnt.

Með tilkynningu er Seðlabankinn að sinna lögbundnu hlutverki sínu. Það að einstakir starfsmenn Seðlabankans hafi unnið um tíma á sama vinnustað og þeir sem tilkynningin beinist að getur ekki valdið vanhæfi starfsmanna Seðlabankans til að koma að slíkum tilkynningum."