Einar Ólafsson, fyrrum stjórnarmaður í FL Group, segir að hann hafi verið skráður forfallaður á stjórnarfundi félagsins þann 21. október [föstudagur] án þess að hann hafi boðað fjarvist. Hann hafi ekki verið boðaður á fundinn.

Í Viðskiptablaðinu í dag segir Einar að fundargerð stjórnarfundar sem haldinn var 21. október 2005 sé fölsuð, en Viðskiptablaðið hefur fundargerðina undir höndum. Þar er Einar skráður forfallaður og segir hann í Viðskiptablaðinu í dag að það hafi verið gert vegna þess að Einar neitaði að greiða atkvæði með kaupum á flugfélaginu Sterling.

Haldnir þrír fundir

„Mér er tjáð, og því get ég ekki neitað, að þarna voru haldnir þrír stjórnarfundir á miðvikudegi, fimmtudegi og föstudegi [19., 20., og 21. október]. Ég var á fundi á miðvikudegi og á fimmtudegi. Síðasti virðist hafa verið haldinn á föstudeginum,“ segir Einar. Á þann fund hafi hann ekki verið boðaður.

„Á fimmtudagsfundinum var mikill hasar vegna Sterling og þar var gengið til atkvæða um að fela Hannesi [innsk. blm.:  Smárasyni] að ganga frá kaupunum. Það segja allir já nema ég. Ég neitaði að taka ábyrgð á þessum gjörningi vegna annarra hluthafa. Ég tjáði stjórninni að ef þetta gengi eftir myndi ég segja mig úr stjórninni,“ segir Einar.

Hann segir að á fundinum hafi hann og Hannes farið fram og rætt málið. „Þar tjái ég honum að þetta samþykki ég ekki. Hann biður mig síðan um að hitta sig daginn eftir. Það geri ég ásamt Jóni Karli [innsk. blm.: Ólafssyni]. Þar segi ég að staða mín sé óbreytt.“

Gengið frá kaupum á föstudegi

„Þeir hafa þá sennilega ekki gengið frá þessu máli á þessum fundi [innsk. blm.: fimmtudaginn 20 október] heldur boðað til annars fundar þar sem ég er ekki viðstaddur, svo það séu engin mótmæli uppi. En ég er ekki boðaður á fundinn, svo ég boðaði ekki forföll,“ segir Einar.