Fyrrverandi stjórn og forstjóri SPRON segja ummæli seðlabankastjóra og fjármálaráðherra um stöðu félagsins ranga.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrrverandi stjórn og forstjóra SPRON en í Markaðnum á Stöð 2 í gær hélt seðlabankastjóri því fram að eigið fé SPRON hafi verið uppurið um páskana á síðasta ári.

Þá sagði fjármálaráðherra sagði á Alþingi s.l. mánudag að eigið fé SPRON hafi farið niður fyrir 8% á fyrsta ársfjórðungi 2008.

„Þessi ummæli eru röng,“ segir í tilkynningunni en þar er fullyrt að samkvæmt árshlutareikningi sparisjóðsins þann 31. 3. 2008 hafi eigið fé SPRON numið 17,8 milljörðum króna og eiginfjárhlutfallið verið 14,1%.

„Stjórn SPRON harmar að opinberir aðilar þurfi að grípa til rangfærslna til þess að réttlæta gjörðir sínar,“ segir í tilkynningunni.

„Það var öllum ljóst að staða SPRON var erfið og hefur verið um nokkurn tíma. Það er hins vegar jafnljóst að lausn var í sjónmáli sem hefði tryggt rekstrargrundvöll sparisjóðsins. Hefðu stjórnvöld veitt sparisjóðnum sambærilega fyrirgreiðslu og þeir veittu öðrum fjármálafyrirtækjum þá væri staða SPRON og starfsmanna ekki sú sem hún er í dag.“