Bob Diamond, fyrrverandi bankastjóri breska bankans Barclays, fær full laun og hlunnindi þrátt fyrir að hann hafi sagt upp störfum í skugga misnotkunar bankans á markaði með millibankavexti. Breska fjármálaeftirlitið sektaði bankann um 290 milljónir punda, jafnvirði um 60 milljarða íslenskra króna, vegna vaxtabrasksins.

Breska ríkisútvarpið, BBC, segir greiðslurnar geta numið allt að tveimur milljónum punda, jafnvirði 400 milljóna íslenskra króna. Laun hans hafa í gegnum tíðina numið 1,34 milljónum punda, jafnvirði tæpra 270 milljóna íslenskra króna.

Diamond hafði eins og aðrir háttsettir stjórnendur bankans afsalað sér bónusgreiðslum sem hann hafði vænst að fá.