John Mack, fyrrverandi bankastjóri bandaríska fjárfestingarbankans Morgan Stanley, er kominn með starf ráðgjafa hjá bandaríska fjárfestingarsjóðnum KKR & Co. Fleiri fyrrverandi forstjórar eru þar innandyra, þar á meðal James Owen, fyrrverandi forstjóri gröfufyrirtækisins Caterpillar, og RIchard Arnoff, fyrrverandi aðstoðarstjórnarformaður tónlistar- og afþreyingarisans Bertelsmann.

Mack var bankastjóri Morgan Stanley á árunum 2005 til 2010 og var stjórnarformaður bankans fram að síðustu áramótum.  Bankinn fékk rúma 100 milljarða dala neyðarlán hjá bandaríska seðlabankanum þegar að kreppti í fjármálakreppunni haustið 2008. Enginn annar banki fékk jafn mikið lánað hjá bandaríska ríkinu. Japanski bankinn Misubishi UFJ og kínverski sjóðurinn China Investment Corp eiga nú stóran hlut í Morgan Stanley.

KKR safnar m.a. fjármagni í sjóði frá fjárfestum og tekur þátt í yfirtökum og kaupum á fyrirtækjum ýmist eitt eða með öðrum. Á Bloomberg-fréttaveitunni kemur fram að í síðasta mánuði hafi fyrirtækið safnað sex milljörðum dala, jafnvirði rúmra 760 milljarða króna, í sjóð sem ætlaður er til umfangsmikilla yfirtökuverkefna í Norður-Ameríku.

Á meðal nokkurra þekktra fyrirtækja sem KKR hefur komið að kaupum á er leikfangarisinn ToysRUs.