Bob Diamond, fyrrverandi bankastjóri breska bankans Barclays, hefur óvænt skotið upp kollinum að nýju í fjármálageiranum. Hann er í hópi fjárfesta sem hefur safnað 325 milljónum dala, jafnvirði tæpra 40 milljarða króna, sem stefnt er á að nýta til að fjárfesta í fjármálafyrirtækjum í Afríku á næsta ári. Hópurinn vinnur saman í nafni fjárfestingafélagsins Atlas Mara.

Bandaríska fréttastofan CNN rifjar upp í umfjöllun sinni um Diamond að hann hafi sagt starfi sínu lausu hjá Barclays í júlí í fyrra eftir að upp komst að starfsmenn bankans hafi með kerfisbundnum hætti á árunum 2005 til 2009 reynt að skekkja uppgefna millibankavexti með því að veita vísvitandi rangar upplýsingar um lántökukostnað sinn, ýmist í þeim tilgangi að hagnast á því eða til að laga stöðu bankans. Í kjölfarið lýsti Mervyn King, sem þá var seðlabankastjóri Bretlands, því yfir að eftirlitsaðilar efist um hæfi Diamond til að stýra bankanum.

Barclays varð að greiða jafnvirði 453 milljóna dala í sekt vegna málsins bæði til fjármálayfirvalda í Bandaríkjunum og Bretlandi.