John Shannon, fyrrverandi eigandi og framkvæmdastjóri bresku barnafatakeðjunnar Adams hefur nú keypt þær 120 verslanir sem enn eru opnar og lítur því allt út fyrir að meginþorri þeirra 1.900 starfsmanna sem enn starfa hjá keðjunni muni halda starfi sínu.

Eins og Viðskiptablaðið hefur áður fjallað um var keðjan tekin yfir af endurskoðunarfyrirtækinu  PricewaterhouseCoopers um jólin vegna rekstrarerfiðleika. Þá var strax varað við því að keðjan kynni að loka búðum og segja upp starfsfólki.

Nú þegar hefur 147 verslunum verið lokað og um 1.100 starfsmönnum verið sagt upp störfum á meðan félagið hefur verið í umsjá PricewaterhouseCoopers.

Adams Kids er stærsta barnafataverslun Bretlands en hjá félaginu störfuðu um 3.200 manns þegar mest lét.

Í Bretlandi fara fyrirtæki ekki í beint í greiðslustöðvun líkt og hér á landi heldur tilnefnir dómari tilsjónarmann, sem oftast er endurskoðunarfélag, yfir fyrirtækjum þannig að hægt sé að koma eignum í verð, endurskipuleggja rekstur nú eða keyra félagið í þrot.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Shannon kaupir keðjuna því hann keypti hana við svipaðar aðstæður í febrúar árið 2007. Nú hefur hann stofnað nýtt félag, JS Childrenswear og notað það félag til að kaupa keðjuna.

„Verslanirnar verða áfram opnar undir merkjum Adams Kids þannig allt lítur út fyrir að merkið hverfi ekki úr smásölugeiranum líkt og svo mörg önnur í þessari niðursveiflu,“ segir Rob Hunt, framkvæmdastjóri hjá PricewaterhouseCoopers sem farið hefur með málefni verslunarkeðjunnar.

Hann tekur fram að með sölunni takist að halda þeim verðmætum sem eftir er í keðjunni.