Þorsteinn Jóhannesson, fyrrverandi framkvæmdastjóri félagsins PVG í Hafnarfirði og einn eigenda þess, lýsti sig saklausan af ákærum um að hafa stungið undan virðisaukaskattgreiðslum og að hafa ekki staðið skil á opinberum gjöldum sem haldið var eftir af launum starfsmanna einkahlutafélagsins á ákveðnu tímabili á árunum 2008 og 2009. Embætti sérstaks saksóknara ákærði Þorstein vegna málsins í maí á þessu ári og sakaði hann um undanskot upp á tæpar 19 milljónir króna á á fimm mánaða tímabili. Málið var það þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.

PVG var stofnað árið 2000 og var um nokkurra ára skeið eitt af stærstu fyrirtækjum landsins í framleiðslu á viðhaldsfríum gluggum og hurðum úr harðplastefninu pvc-u. Í september árið 2007 sameinaðist það Glugga og Glerhöllinni á Akranesi. Ári síðan keypti fyrirtækið síðan Glerborg og dótturfyrirtæki þess, Gler og spegla. Glerborg er eitt elsta fyrirtæki landsins á sviði glerframleiðslu. Þorsteinn varð framkvæmdastjóri Glerborgar í kjölfar kaupanna. Í febrúar árið 2009 seldi PVG rekstur Glerborgar. PVG var úrskurðað gjaldþrota í júlí árið 2009 og heitir félagið í dag KK 101 ehf.

Ákæra embættis sérstaks saksóknara á hendur Þorsteini er í tveimur liðum. Í þeim fyrri er honum gefið að sök að hafa haldið eftir virðisaukaskatti í september og október árið 2008 og stungið rúmum 5,8 milljónum króna undan skatti. Í hinum liðnum er Þorsteini gefið að sök að hafa ekki staðið skil á staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launum starfsmanna einkahlutafélagsins frá í október til og með desember rekstrarárið 2008 og janúar til febrúar árið 2009. Undanskotið er talið nema 12,8 milljónum króna.

Farið er fram á sex mánaða skilorðsbundinn dóm yfir Þorsteini og til greiðslu tvöfalds skattaundanskotsins.