Jón Snorri Snorrason, lektor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og fyrrverandi stjórnarformaður Sigurplasts í Mosfellsbæ, gagnrýnir það sem fram kom í netútgáfu Viðskiptablaðsins um fyrirtækið og aðkomu nýrra eigenda að því.

Hann hefur sent Viðskiptablaðinu athugasemdir í tengslum við umfjöllun vb.is um söluna

Athugasemdir Jóns Snorra:

„Undir fyrirsögninni „Reksturinn var í henglum“ segir: „Í stuttu máli sagt fór fyrirtækið í þrot haustið 2010 eftir að Arion banki gjaldfelldi 1,1 milljarða króna lán fyrirtækisins gagnvart bankanum. “

Sigurplast skuldaði aldrei 1,1 milljarða króna lán. Fyrir liggur fyrir að gengisbundin lán, líkt og þetta, voru ólögmæt, þar sem dómur Hæstaréttar (júni 2010) lá fyrir þegar bankinn krafði félagið um þessa fjárhæð, sem fór í þrot í september. Lánin voru síðan metin á um 400 m.kr. skv. endurútreikningi bankans. Þessi útbólgna tala byggist á þeim ólögmæta útreikningi og því er engin innistæða fyrir henni.

Síðan segir: „Í DV hefur sömuleiðis komið fram að lögregla rannsaki starfsemi fyrri eigenda.”  Það kemur á óvart hvers vegna blaðamaður heldur sig ekki við staðreyndir þessa máls, t.d. með tilvísun í eigin umfjöllun Viðskiptablaðsins, frekar en að vitna til DV til frásagnar. Viðskiptablaðið hefur sagt frá staðreyndum þessa máls, það hefur þegar sagt frá stefnu minni gagnvart DV, niðurstöðu dómsins sem var mér í vil og ummælin dæmd þar dauð og ómerk, loks yfirlýsingu Háskólans um meinta rannsókn á mér væri ekki til staðar. Þessir tenglar blaðsins voru við hliðina á umfjölluninni! Það voru hæg heimatök að hafa það sem sannara reynist.

Í kaflanum „Starfsmenn héldu rekstrinum á lífi“ segir: „Ragnar segir aðkomuna að Sigurplasti eftir fyrri eigendur sem ráku fyrirtækið áður en bankinn tók það yfir hafa verið slæma. Áður en reksturinn fór í þrot hafi þeir flutt umboð frá erlendum birgjum yfir í annað félag og skilið bókhaldið eftir í henglum.“

Velta Sigurplasts þrefaldaðist frá 2007 til 2010 og afkoman var vel viðunandi, en EBITDA var um 50 m.kr. fyrir árið 2009. Engin umboð fylgdu kaupunum á sínum tíma, enda ekkert til lengur sem heitir getur umboð og þess vegna getur engin flutt umboð. Engin athugasemd hefur komið frá skiptastjóra um að bókhaldið hafi verið í henglum. Þess má geta að bókhaldið hefur verið fært af sama einstaklingi frá 2007 til dagsins í dag. Varla væri viðkomandi í því verkefni ef það væri í henglum.

Loks segir „Starfsfólkið hélt fyrirtækinu á lífi þegar bankinn átti það og þeim tókst að reka það á núlli. Nú ætlum við að reisa Sigurplast upp úr öskustónni, segir Ragnar.“

Hið rétta er að samkvæmt yfirliti við sölukynningu þess fyrir nokkrum vikum kemur fram að EBITDA er neikvæð um 16 m.kr. árið 2011. Það er ekki sama og núll. Einfalt hefði verið að sannreyna allar þessar fullyrðingar Ragnars. Svo má geta þess að samkvæmt söluyfirlitinu á veltan að aukast um 30 m.kr. á árinu 2012, en EBITDA um 24 m.kr., eða 80% af veltuaukningunni. Það segir allt sem segja þarf um áreiðanleika þessara gagna  sem fréttin byggist á.“