Hæstiréttur staðfesti í dag dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Arnars og Bjarka Gunnlaugssona, Komáks Geirharðssonar og Skjaldar Sigurjónssonar gegn Landsbankanum. Fjórmenningarnir áttu félagið Kolskegg sem rak veitingastaðinn Domo.

Forsaga málsins er sú að í desember 2009 seldi Kolskeggur veitingastaðarekstur sinn til Bjarka. Í samningi milli aðila um kaupin kom m.a. fram að Bjarki tæki yfir skuld Kolskeggs við Landsbankann, sem var grundvölluð á fjórum skuldabréfum, þar á meðal skuldabréfinu sem deilt var um í málinu, samtals að fjárhæð um 36 milljón krónur. Þá var einnig kveðið á um að Bjarki gengist í sjálfskuldarábyrgð fyrir 26 milljónir króna og að „kauptilboðshafar“ yrðu enn í ábyrgðum fyrir 10 milljónir króna. Voru sjálfskuldarábyrgðir þeirra samkvæmt öðrum skuldabréfum sem gefin höfðu verið út af Kolskeggi þannig felldar niður.

Í tengslum við söluna rituðu fjórmenningarnir undir skjal hjá gamla Landsbankanum um skuldskeytingu sem „sjálfskuldarábyrgðaraðilar“. Í kjölfar þess að skuldabréfið fór í vanskil kröfðust fjórmenningarnir þess í bréfi til gamla Landsbankans að bankinn gæfi út yfirlýsingu um að hann myndi ekki bera ábyrgðaryfirlýsingar þeirra fyrir sig. Þegar ekki var orðið við því höfðuðu þeir mál og kröfðust þess að viðurkennt yrði að sjálfskuldarábyrgð þeirra væri úr gildi fallin.

Hvorki Héraðsómur Reykjavíkur né Hæstiréttur féllst á rök fjórmenninganna og var því ekki viðurkennt að sjálfskuldarábyrgð þeirra væri felld niður.