Gríska þingið ákvað seint í gær að rannsaka beri ásakanir á hendur fyrrverandi fjármálaráðherra Grikklands, George Papaconstantinou. Er honum gefið að sök að hafa eytt nöfnum þriggja ættingja sinna af hinum svokallaða Lagarde-lista yfir meinta skattsvikara.

Christine Lagarde, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, afhenti árið 2010 grískum stjórnvöldum lista yfir 2.000 gríska ríkisborgara sem eru með fé á svissneskum bankareikningum. Á þeim tíma var Lagarde fjármálaráðherra Frakklands. Fréttir af listanum fóru hins vegar ekki á kreik fyrr en í september í fyrra.

Papaconstantinou var sparkað úr PASOK stjórnmálaflokknum eftir að í ljós kom að hann hafði hreinsað til á listanum. Fréttaritari Guardian í Aþenu segir að stjórnarandstaðan sé ósátt við að aðeins eigi að rannska þátt Papaconstantinou í málinu, en grunur leikur á um að verið sé að fórna honum til að bjarga leiðtoga PASOK flokksins, Evangelos Venizelos, sem sumir stjórnarandstöðuþingmenn að minnsta kosti hafa grunaðan um að hafa leikið svipaðan leik og Papaconstantinou.