Matthías Imsland hefur söðlað um og mun næstu fjögur ár helga sig pólitík í stað viðskipta. Hann hefur þó í gegnum tíðina starfað innan Framsóknarflokksins en er betur þekktur fyrir aðkomu sína að íslenskum flugfélögum. Matthías hefur nú tekið við starfi aðstoðarmanns Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra.

Matthías starfaði löngum í flugrekstri og var um tíma forstjóri Iceland Express. Hann tók síðar þátt í stofnun Wow air og gegndi þar stöðu framkvæmdastjóra flugrekstrarsviðs. Nokkrar deilur spunnust um aðild hans að Wow air sem náðu hámarki síðastliðið sumar. Þá sökuðu forsvarsmenn Iceland Express hann um að hafa undirbúið stofnun Wow air á meðan hann starfaði enn hjá Iceland Express og sögðu þeir hann hafa stolið trúnaðargögnum frá félaginu þegar honum var sagt upp sem forstjóra. Matthías neitaði þessum ásökunum og fjöruðu deilurnar út án þess að til frekari aðgerða væri gripið.

Ítarlega fjallað um starfsferil Matthíasar Imsland í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum Tölublöð hér að ofan.