Benedikt Árnason, fyrrverandi forstjóri Askar Capital, hefur störf hjá Samkeppniseftirlitinu í byrjun nóvember.

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, staðfesti þetta í samtali við Viðskiptablaðið. Hann segir að nánar verði greint frá ráðningu Benedikts þegar nær dregur.

Benedikt gegndi starfi aðstoðarforstjóra Askar Capital frá því í ágúst 2007 og tók við starfi forstjóra um ári síðar. Áður starfaði hann sem einn af aðstoðarframkvæmdarstjórum Norræna fjárfestingarbankans í Helskinki og var svæðisstjóri fyrir Ísland.

Frá árinu 1996 til 2005 starfaði Benedikt sem skrifstofustjóri fjármálamarkaðar og staðgengill ráðuneytisstjóra í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu. Þar vann hann meðal annars að einkavæðingu, raforkumálum og erlendri fjárfestingu auk málefna fjármálamarkaðar.

Benedikt er hagfræðingur að mennt. Hann lauk M.A og M.B.A prófum frá University of Toronto að loknu Cand. Oecon. prófi frá Háskóla Íslands.