Jón Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri FL Group og einn eigenda GAMMA, býður sig fram að nýju sem einn af fimm í stjórn N1. Hluthafafundur N1 verður haldinn 20. ágúst næstkomandi og verður þar kosið í stjórnina. Framboðsfrestur rann út á föstudag í síðustu viku. Jón er ekki einn í framboði til stjórnar en um sætið því það vill líka Helga Björk Eiríksdóttir, fyrrverandi fjárfestatengill Marel og Kauphallarinnar.

Fram kemur í tilkynningu frá N1 að á dagskrá hluthafafundarins sé m.a. kjör eins aðalstjórnarmanns af fimm í stjórn félagsins og kjör tveggja varastjórnarmanna að því gefnu að ekki verði samþykkt tillaga stjórnar á fundinum um að fella niður ákvæði um varastjórnarmenn í samþykktum félagsins. Engin framboð bárust hins vegar til varastjórnar.

Ætlar að passa upp á upplýsingagjöfina

Jón gaf kost á sér til setu í stjórn N1 á síðasta aðalfundi N1 í vor. Hann varð hins vegar að draga framboðið til baka rétt fyrir aðalfundinn þar sem Kauphöllin taldi vafa leika á hæfi hans til setu í stjórn félaga með skráða fjármálagerninga. Athugasemdir kauphallarinnar sneru að þremur áminningum sem stofnunin veitti FL Group/Stoðum á þeim tíma sem Jón var forstjóri félagsins. Tvær áminningar sneru að skráningu nýrra hluta í kjölfar hlutafjárhækkunar sem fór fram í desember 2007 og hins vegar hvenær upplýsingaskylda hefði orðið virk gagnvart markaði vegna sölu á eignarhlutumí Commerzbank í janúar 2008. Kauphöllin gerir ekki athugasemdir við framboð hans nú.

Í bréfi sem Jón ritar og stílað er á Margréti Guðmundsdóttur, formann stjórnar N1, í tengslum við framboð sitt nú segir hann að í framhaldi af því að meira en fimm ár eru liðin frá þeim atvikum sem Kauphöllin vísaði til óski hann eftir endurskoðun á afstöðu Kauphallarinnar varðandi hæfi sitt.

Hann skrifar:

„Í þeim samskiptum sem ég hef átt við Kauphöllina hef ég undirstrikað að ég ber virðingu fyrir reglum hennar og geri mér fulla grein fyrir að brot á reglum hennar og þeirri löggjöf sem hún byggir á eru alvarlegs eðlis og þá sérstaklega þær reglur sem varða upplýsingaskyldu til markaðarins. Ég hef skilning á þeim viðurlögum sem Kauphöllin taldi rétt að veita FL Group á sínum tíma og ítreka að ég mun í framtíðarstörfum mínum fyrir skráð fyrirtæki, hvort sem er sem stjórnarmaður eða í öðrum störfum, gæta þess að reglum um upplýsingagjöf verði fylgt í hvívetna með jafnræði fjárfesta að leiðarljósi. Kauphöllin hefur nú staðfest við mig að hún muni ekki gera athugasemdir við framboð mitt eða setu í stjórn félaga með skráða fjármálagerninga. Ég tel nauðsynlegt að upplýsa markaðsaðila um ofangreint og óska því eftir því að N1 hf. birti þetta bréf sem viðhengi við frétt sína um framkomin framboð.“