„Ég vil vekja athygli á því að nú lifir Íbúðalánasjóður ennþá á meðan heilt bankakerfi hrundi,“ sagði Guðmundur Bjarnason, fyrrverandi forstjóri Íbúðalánasjóðs, þegar hann mælti fyrir framan stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis í morgun. Þar var skýrsla rannsóknarnefndar um Íbúðalánasjóð til umræðu.

Íbúðalánasjóður hefur viðurkennt að tap hans nemi í heild um 64 milljörðum króna. Frá bankahruni hefur sjóðurinn fengið 46 milljarða úr ríkissjóði. Guðmundur andmælti aftur á móti því sem fram kom í skýrslunni harðlega. „Vonandi nýtist eitthvað af þeim 900 síðum skýrslunnar og kostnaði við hana til að ræða framtíðarskipan húsnæðismála,“ sagði Guðmundur jafnframt.

Guðmundur sagði að það væri margt rangt í skýrslunni. Þar væri meðal annars ekki gerður greinarmunur starfi Alþingis og starfi stjórnenda sjóðsins. Benti hann meðal annars á að nítíuprósent lán sjóðsins væru algerlega á ábyrgð Alþingis.

Þá benti Guðmundur á að sjóðurinn hafi alltaf verið rekinn með hagnaði fyrir bankahrun nema árið 2001. Um 92% af tapi sjóðsins sé tilkomið eftir hrun.