Eggert Benedikt Guðmundsson hefur verið ráðinn forstjóri ReMake Electric ehf. en Eggert var forstjóri N1 á árunum 2012 til 2015.

Eggert lauk meistaraprófi í rafmagnsverkfræði frá háskólanum í Karlsruhe, Þýskalandi árið 1990. Hann vann við rannsóknir og þróun hjá Íslenska járnblendifélaginu hf. næstu fimm árin, en hélt þá til náms við IESE viðskiptaháskólann í Barcelona og lauk þar MBA prófi vorið 1997. Eggert vann við markaðsmál og viðskiptaþróun hjá Philips Electronics á árunum 1997 til 2004. Á árunum 2004 til 2012 starfaði hann hjá HB Granda, fyrst sem markaðsstjóri en sem forstjóri frá árinu 2005. Eins og áður sagði var hann einnig forstjóri N1 á árunum 2012 til 2015.

Ína Björk Hannesdóttir sem hefur leitt starf ReMake undanfarin ár mun starfa áfram sem rekstrarstjóri félagsins.

Eggert Benedikt segist vera spenntur fyrir nýju verkefni:

„ReMake býður lausnir sem hjálpa fyrirtækjum að draga úr orkunotkun og auka rekstraröryggi.  Þetta hjálpar því m.a. til við að draga úr mengun og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.  Alls staðar í heiminum er nú leitast við að geta staðið við markmið og skuldbindingar sem gefin voru á Parísaráðstefnunni í lok sl. ár.  Við munum leggja megináherslu á uppbyggingu sölustarfsins, því tæknilegar lausnir ReMake eru orðnar vel þróaðar og ReMake hefur alla burði til að verða leiðandi afl í orkustjórnun í heiminum.  Hjá ReMake vinnur afburðafólk. Ég er því fullur tilhlökkunar að takast á við þetta verkefni, enda nýtist hér reynsla mín af rafmagnsverkfræði, markaðsmálum og fyrirtækjarekstri.”

Remake Electric er orkustjórnunarkerfi sem gerir fyrirtækjum kleift að skilja og bæta orkunotkun sína. Lausn frá fyrirtækinu mælir, vaktar og skráir rafmagnsnotkun niður á hverju grein í rauntíma, en með því er hægt að bæta orkunýtingu, auka rekstraröryggi og lækka kostnað, segir í tilkynningu frá fyrirtækinu.