„Í hönnunarforsendum fyrir Hellisheiðarvirkjun var reiknað með að holur væru fimm megavött. Þær holur sem eru tengdar Hellisheiðarvirkjun í dag eru meira en tíu megavött að meðaltali,“ segir Guðmundur Þóroddsson fyrrverandi forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur í samtali við Morgunblaðið. Hann bendir á að ef orkuöflun hefði verið sinnt væri allt samkvæmt áætlun.

„Það var alltaf reiknað með því að það þyrfti að bora viðhaldsholur til að afla henni gufu,“ segir Guðmundur og miðað hafi verið við um það bil eina holu á ári. Ekki sé ennþá búið að bora eina einustu viðhaldsholu. Hann segir við Morgunblaðið að vitað hafi verið frá upphafi að afkastageta virkjunarinnar myndi minnka og bora þyrfti fleiri viðhaldsholur.