Frederick Anderson Goodwin, fyrrverandi forstjóri Royal Bank of Scotland, má ekki lengur nota titilinn Sir. Hann var í dag sviptur aðalstign, sem hann hlaut fyrir árangur í bankastarfsemi árið 2004. Í frétt Financial Times um málið kemur fram að aðeins tveir aðrir hafa verið sviptir aðalstign í Bretlandi.

Royal Bank of Scotland stækkaði hratt undir stjórn Goodwins á árunum 2001 til 2008. Ævintýrið endaði þó árið 2008 þegar tap bankans var meira en nokkurs annars banka í sögu landsins. Breska ríkið á í dag 83% hlut í RBS, eftir að hafa komið bankanum til bjargar.