*

mánudagur, 30. mars 2020
Fólk 13. september 2017 17:12

Fyrrverandi forstjóri Skeljungs til VÍS

Þrír framkvæmdastjórar hjá VÍS láta af störfum hjá félaginu, en Valgeir M. Baldursson, fyrrverandi forstjóri Skeljungs hefur verið ráðinn.

Ritstjórn
Valgeir M. Baldursson, var áður forstjóri Skeljungs, en tekur nú við stöðu framkvæmdastjóra hjá VÍS.
Haraldur Guðjónsson

Valgeir M. Baldursson, sem lét nýverið af störfum sem forstjóri olíufélagsins Skeljungs, hefur nú tekið við sem framkvæmdastjóri fjárfestinga og reksturs. hjá tryggingafélaginu VÍS. Þar mun hann starfa undir forstjóra félagsins. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu VÍS til Kauphallarinnar, þar sem kynntar eru breytingar á framkvæmdastjórn félagsins. 

Framkvæmdastjórum fækkað

Skipuriti VÍS hefur verið breytt talsvert. Framkvæmdastjórar verða fjórir í stað sex og stjórnendur eru nú 26 í stað 33 áður. „Aukin áhersla er lögð á öfluga þjónustu við viðskiptavini og stafrænar lausnir. Þetta er gert til að búa fyrirtækið betur undir framtíðaráskoranir sem blasa við. Samfélagið tekur hröðum breytingum og þjónustufyrirtæki eins og VÍS þurfa að breytast með,“ segir í fréttatilkynningu frá félaginu.

Auður Björk Guðmundsdóttir verður framkvæmdastjóri Þjónustu, Guðný Helga Herbertsdóttir verður framkvæmdastjóri Stafrænnar þróunar og Ólafur Lúther Einarsson verður framkvæmdastjóri Kjarnastarfsemi. Valgeir M. Baldursson kemur nýr til félagsins en hann var áður forstjóri Skeljungs. Valgeir verður framkvæmdastjóri Fjárfestinga og reksturs.

Agnar Óskarsson framkvæmdastjóri tjónasviðs, Guðmar Guðmundsson framkvæmdastjóri fjármálasviðs og Þorvaldur Jacobsen framkvæmdastjóri þróunarsviðs munu láta af störfum í kjölfar þessara breytinga.