„Ég mun leita réttar míns,“ segir Guðmundur Gunnarsson, fyrrverandi forstjóri VÍS í samtali við Viðskiptablaðið. Hann var á meðal sakborninga í VÍS-málinu sem sérstakur saksóknari hefur rannsakað og hefur nú gefið út ákæru í.

Guðmundur var handtekinn vegna rannsóknar málsins vorið 2011 ásamt Lýði Guðmundssyni, sem var aðaleigandi Existu ásamt bróður sínum, Bjarna Brynjólfssyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra eigin viðskipta Existu, og Erlendi Hjaltasyni, fyrrverandi forstjóra Existu. Af þessum fjórum er Lýður Guðmundsson einungis ákærður en Sigurður Valtýsson, sem einnig er fyrrverandi forstjóri Existu, var líka ákærður.

Málið snýst um tugmilljónakróna lán frá VÍS til eignarhaldsfélagsins Korks sem var í helmingseigu Lýðs Guðmundssonar og tugmilljónakróna láns VÍS til Sigurðar á árinu 2009. Sérstakur saksóknari telur að umrædd lán hafi verið ólögleg.

Guðmundur Gunnarsson segist hafa kvartað yfir málsmeðferðinni til Umboðsmanns Alþingis fyrir allnokkru síðan. Hann bíði eftir niðurstöðu þess embættis. „Þegar það liggur fyrir þá mun ég leita réttar míns,“ segir hann.