Sérstakur saksóknari hefur ákært Friðfinn Ragnar Sigurðsson, fyrrverandi framkvæmdastjóra fjárstýringar Glitnis, fyrir innherjasvik. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Þar segir að andvirði viðskipanna hafi verið á annan tug milljóna króna. Þetta er annað innherjasvikamál sem embætti sérstaks saksóknara hefur höfðað frá hruni. Friðfinnur er sakaður um að hafa selt hlutabréf sín í bankanum þrátt fyrir að hafa vitað um slæma stöðu bankanas í aðdraganda bankahrunsins.

Friðfinnur var jafnframt einn þeirra sem fengu há lán frá Glitni skömmu fyrir hrun en einkahlutafélag hans fékk 171 milljón króna að láni. Félagið varð gjaldþrota í fyrrasumar og fengust engar eignir upp í þrjú hundruð milljóna skuld.