Ingi Rafnar Júlíusson, fyrrverandi forstöðumaður markaðsviðskipta hjá Glitni, fékk í vikunni viðurkennda tæplega 12 milljóna króna bónusgreiðslu í þrotabú Glitnis. Niðurstaða féll í málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur. Ingi Rafnar gerði kröfu í þrotabú Glitnis upp á 63 milljónir króna. Dómurinn hefur fordæmisgildi fyrir um 100 sambærileg mál fyrrverandi starfsmanna Glitnis, að því er fram kemur í DV í dag.

Kröfurnar eru í níu liðum og féllu undir þær 24,4 milljónir króna skólagjöld og launagreiðsla sem hann taldi bankann eiga að greiða sér eins og ráðningarsamningur kvað á um.

Bónusgreiðslan er reiknuð út frá hlutdeild Inga Rafnars í tekjum markaðsviðskipta Glitnis í september og október árið 2008. Ríkið tilkynnti 29. september sama ár að það ætlaði að leggja bankanum til 600 milljónir evra í skiptum fyrir 75% hlut í bankanum og forða honum frá því að fara í þrot. Sú varð reyndar raunin viku síðar.

Fram kemur í umfjöllun DV um málið í dag að Páll Eiríksson, sem situr í slitastjórn Glitnis, að hann búist við því að málinu verði áfrýjað. Staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu héraðsdóms þá verður krafa Inga Rafnars viðurkennd sem almenn krafa í þrotabú Glitnis. Hann getur því átt von á því að fá samkvæmt því, reyndar eins og aðrir almennir kröfuhafar, tæp 30% af kröfu sinni eða í kringum 3,6 milljónir króna.