"Samkeppnin verður hörð", því lofar ritstjóri nýs fríblaðs sem væntanlegt er í Danmörku en það mun keppa við Nyhedsavisen, fríblað Dagsbrúnar sem kemur út í Danmörku í haust.

Sá sem tekur við þessu starfi þekkir danska blaðamarkaðinn vel því um er að ræða Poul Madsen, sem verið hefur ritstjóri Extra Bladet þar í landi.

Hið nýja blað hefur ekki fengið nafn en fyrirhugað er að það verði í senn nýtískulegt og klassískt. Blaðið mun einkum byggja á stuttum fréttum, að því er fram kemur í danska blaðinu Politiken.

"Stríðið á blaðamarkaðnum verður blóðugt," segir Madsen þar. Þótt hann eigi sér forsögu sem ritstjóri Extra Bladet, sem þykir heldur slúðurkennt, verður hið nýja blað ekki í þeim anda.