Héraðsdómur Reykjavíkur féllst ekki á rök Kötlu Guðrúnar Jónasdóttur, fyrrverandi sambýliskonu og barnsmóður breska fjárfestisins Kevins Stanfords, í skattamáli hennar gegn ríkinu.

Katla Guðrún stefndi ríkinu vegna ákvörðunar ríkisskattstjóra um að endurákvarða opinber gjöld Kötlu Guðrúnar gjaldárin 2007, 2008 og 2009. Úrskurður Ríkisskattstjóra var kveðinn upp í byrjun september 2011 og var síðar staðfestur af yfirskattanefnd eftir að Katla Guðrún hafði kært ákvörðun ríkisskattstjóra þangað.

Ríkisskattstjóri og Yfirskattanefnd komust að þeirri niðurstöðu að virða bæri greiðslu Stanfords til Kötlu Guðrúnar að fjárhæð 40 milljóna króna á tekjuárinu 2006 og afsal Stanfords á 77 milljóna króna fasteign við Ingólfsstræti í Reykjavík til Kötlu Guðrúnar á tekjuárinu 2007, sem beinar gjafir. Að auki skildi Katla Guðrún greiða 29 milljóna króna álag í ljósi þess að hún taldi ekki fram umræddar gjafir í skattframtali.

Héraðsdómur Reykjavíkur kemst að þeirri niðurstöðu að umrædd 40 milljóna króna greiðsla og afsal af fasteigninni hafi falið í sér gjöf og verið réttilega skattlögð í úrskurði yfirskattanefndar.

Katla Guðrún sætir einnig ákæru af hálfu sérstaks saksóknara fyrir að hafa vantalið tekjur sínar um tæpar 117 milljónir króna og að hafa stungið rúmum 42 milljónum króna undan skatti vegna þessa sama máls.