Philipp Hildebrand hefur sýnt fram á að það er líf og kannski frami eftir að maður segir af sér sem seðlabankastjóri. Hildebrand var seðlabankastjóri Sviss en sagði af sér vegna gagnrýni um umfangsmikil gjaldeyrisviðskipti konu sinnar í janúar síðastliðnum. Hann hefur fengið nýtt starf. Það er hjá bandaríska eignastýringarfyrirtækinu BlackRock.

Hildebrand mun taka við sem einn af yfirmönnum fyrirtækisins og hafa á sinni könnu stofnanafjárfesta utan Bandaríkjanna auk samskipta við erlend ríki og eftirlitsaðila í Evrópu, Miðausturlöndum og í Asíu.

Um svipað leyti og eiginkona Hildebrands átti í gjaldeyrisviðskiptunum lækkaði gengi svissneska frankans vegna aðgerða seðlabankans.

AP-fréttastofan segir um málið í dag að svissneski seðlabankinn hafi hreinsað Hildebrand-hjónin af öllum ákúrum um að eitthvað misjafnt hafi átt sér stað. Hins vegar hafi reglur um viðskipti starfsmanna seðlabankans og maka þeirra verið hertar.