Gunnar Andersen, fyrrverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins, var ekki eini embættismaðurinn sem lak upplýsingum í fjölmiðla, að því er kemur fram í nýrri bók Eggerts Skúlasonar, ritstjóra DV, Andersenskjölin - rannsóknir eða ofsóknir? Starfsmaður sýslumannsembættis var fréttamanni liðlegur við fréttaöflun, sem og þáverandi skattrannsóknarstjóri, að því er segir í bókinni.

„Blaðamönnum, sumum oftar en öðrum, bárust upplýsingar frá heimildarmönnum, sem komu bæði innan úr embættismannakerfinu eða rannsóknarstofnunum og úr skilanefndum og síðar slitastjórnum bankanna. Upplýsingum var laumað til blaðamanna á ýmsa vegu. Þannig bárust tilteknum fjölmiðlamönnum í pósti þær skýrslur sem Eva Joly og hennar fólk höfðu aðgang að á USB-lykli í ómerktu umslagi,“ segir í bókinni.

„Annar fréttamaður greindi frá því að starfsmaður hjá Sýslumanninum í Reykjavík hefði alltaf hringt í sig þegar eignir fjármálamanna voru kyrrsettar. Þessi símtöl voru stutt en með öllum nauðsynlegum upplýsingum sem þurfti til að koma af stað vinnslu fréttar.“

Fleiri embættismenn eru nefndir til sögunnar í bókinni: „Þannig fékk fréttamaður Stöðvar 2 viðtal við þáverandi skattrannsóknarstjóra, Stefán Skjaldarson, nokkru eftir bankahrunið. Fréttamaðurinn fékk svör við ýmsum spurningum en jafnframt veigamiklar upplýsingar um önnur mál sem hann hafði ekki hugmynd um að væru í gangi. „Ég labbaði út með sjö fyrstu fréttir,““ er haft eftir fréttamanninum í bókinni.