Ríkissaksóknari hefur ákært fyrrverandi skólastjóra grunnsólkans á Tálknafirði fyrir fjárdrátt og brot í starfi. Vestfirski fréttavefurinn bb.is segir frá ákærunni í dag.

Í fréttinni segir að skólastjóranum fyrrverandi sé gefið að sök að hafa dregið sér rúmlega eina og hálfa milljón af fjármunum skólans. „Í ákæru segir að maðurinn, sem er á fimmtugsaldri, hafi á tímabili frá 5. nóvember 2008 til 30. júlí 2009 misnotað aðstöðu sína sem skólastjóri, bæði á þáverandi heimili sínu og í húsnæði Grunnskólans á Tálknafirði, að Sveinseyri.“

Í ákærunni segir ennfremur að skólastjórinn fyrrverandi hafi dregið sér samtals rúmlega eina og hálfa milljón með óheimilum millifærslum af bankareikningi skólans hjá Sparisjóði Vestfirðinga. Hann fór með vörslu á og hafði aðgang að bankareikningnum með heimabanka.

Inn á eigin reikning færði skólastjórinn tæpar 1,3 milljónir í nítján færslun. Samtals 230 þúsund krónur færði hann inn á bankareikning eiginkonu sinnar, í sex færslum. Fjármunina nýtti hann í eigin þágu og fjölskyldu sinnar, segir í frétt bb.is.

„Tálknafjarðarhreppur gerir skaðabótakröfu í málinu. Þess er krafist að skólastjórinn fyrrverandi greiði hreppnum tæpar tvær milljónir króna með vöxtum.“