Héraðsdómur Reykjaness dæmdi í dag Guðlaugu Sigríði Arnórsdóttur, fyrrverandi starfsmann MP banka, í tveggja ára fangelsi fyrir tugmilljóna króna fjárdrátt á tímabilinu 13. desember 2012 til 18. febrúar 2015.

Af þessum tveimur árum eru 22 mánuðir skilorðsbundnir til þriggja ára. Auk þess var henni gert að greiða MP banka þær 60 milljónir sem hún hafði dregið að sér, auk vaxta. Henni var einnig gert að greiða sakarkostnað.

Hún var ákærð fyrir að hafa dregið að sér rúmlega 60 milljónir króna. Við ákvörðun refsingar var horft á að hún játaði brot sitt skýlaust fyrir dómi, hún hefur þegar greitt til baka um hálfa milljón króna og hún hefur ekki áður gerst sek um refsiverða háttsemi og var þetta metið til refsilækkunar.

Til refsiþyngingar var horft á hversu stórfellt brotið var, og til hversu langs tíma brotin náðu yfir.