Glitnir í Lúxemborg hefur stofnað dótturfélagið Reviva Capital til að annast umsýslu og reksturs eignasafns bankans. Reviva Capital hefur hlotið starfsleyfi frá yfirvöldum og fjármálaeftirliti Lúxemborgar til að annast innheimtu- og eignaumsýslustarfsemi og hyggst félagið jafnframt bjóða öðrum aðilum þjónustu sína. Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins eru það aðilar sem tengjast Landsbankanum í Lúx og gamla Kaupþingi.

Hjá Reviva Capital starfa átján starfsmenn, þar af níu Íslendingar. Stjórnendur og lykilstarfsmenn Glitnis í Lúxemborg eiga 10% hlut í félaginu sem að öðru leyti er samkvæmt tilkynningu í eigu Glitnis í Lúxemborg. Eignarhlutur starfsmanna er skilyrtur og tengdur markmiðum félagsins til lengri tíma.

Ari Daníelsson meðal eigenda

Á meðal minnihlutaeiganda í Reviva Capital eru Ari Daníelsson framkvæmdastjóri, Paul Embleton fjármálastjóri, Sigþór H. Guðmundsson yfirlögfræðingur og Fredrik Engman yfirmaður lánasviðs. Í stjórn Reviva Capital sitja Eric Collard slitastjóri Glitnis í Lúxemborg, Kristján Óskarsson framkvæmdastjóri skilanefndar Glitnis á Íslandi og Ari Daníelsson framkvæmdastjóri Reviva Capital.

Bankar og skiptastjórar viðskiptavinir

Reviva Capital sinnir eignaumsýslu og innheimtu auk ráðgjafar á sviði fjárhagslegrar endurskipulagningar. Viðskiptavinir félagsins eru bankar, fjárfestingasjóðir, skiptastjórar og aðrir sem ráða yfir eignum og lánasöfnum sem þarfnast úrvinnslu, endurskipulagningar og innheimtu. Starfsmenn félagsins hafa allir bakgrunn í útlánastarfssemi, fjárfestingarbanka- starfsemi, fjármögnun fasteignaverkefna og fyrirtækjaráðgjöf.

Eignir í stýringu hjá Reviva Capital nema nú um 1,6 milljörðum Evra, sem jafngildir um 250 milljörðum íslenskra króna. Eignirnar eru að stórum hluta lán til fasteigna- og eignarhaldsfélaga, en einnig lán til einstaklinga. Reviva Capital gerði nýverið samning við þrotabú Landsbankans í Lúxemborg og við tvo stærstu kröfuhafa hans, Seðlabanka Lúxemborgar og skilanefnd Landsbanka Íslands, um umsýslu og innheimtu á stórum hluta eignasafns þrotabús Landsbankans í Lúxemborg.  Samhliða þessu hefur Reviva Capital ráðið til sín nokkra af fyrrum starfsmönnum Landsbankans í Lúxemborg.

Studdu stofnun félagsins

„Fyrir Reviva Capital liggur það flókna langtímaverkefni  að hámarka verðmæti eignasafns Glitnis í Lúxemborg.  Til að það megi takast er mikilvægt að það ríki stöðugleiki og langtímahugsun og með það að leiðarljósi studdi skilanefnd Glitnis stofnun félagsins heilshugar.  Sá hópur sem leiðir félagið hefur staðið vel að verki við fjárhagslega  endurskipulagningu bankans frá hruni og notið trausts yfirvalda og kröfuhafa í Lúxemborg, en Seðlabanki Lúxemborgar er stærsti kröfuhafinn,” er haft eftir Árna Tómassyni, formanni skilanefndar Glitnis, í tilkynningu.