Breski bankinn Barclays og fjórir fyrrverandi stjórnendum hafa verið ákærðir fyrir fjársvik vegna neyðarláns sem að fjárfestar frá Katar veittu breska bankanum í hringiðu fjármálaáfallsins 2008. SFO - efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar rannsakar málið. Þetta kemur fram í frétt BBC.

Meðal þeirra ákærðu er John Varley, sem var forstjóri bankans á þessum tíma. Þrír aðrir starfsmenn bankans, Roger Jenkins, Thomas Kalaris, og Richard Boath, hafa einnig verið ákærðir. Í yfirlýsingu frá Barclays kemur fram að bankinn vegi nú og meti kosti sína. Alls var safnað milljörðum punda frá katörskum fjárfestum til að koma í veg fyrir að ríkið þyrfti að taka yfir skuldir bankans.